Skissum sýklalyfjaónæmi

Velkomin í alla söguna

Innra með okkur býr ævaforn, ósýnilegur og lifandi heimur. Þessi innri heimur samanstendur af örverum sem hjálpa okkur að melta fæðuna, vernda húðina og stuðla að jafnvægi vistkerfa. Þær flestar lifa í sátt og samlyndi við okkur en sumar geta þó valdið sjúkdómum. Eins og aðrar lífverur þróast þær og laga sig sífellt að aðstæðum í lífsbaráttu sinni. En þegar þær aðlagast lyfjum sem eiga að halda þeim í skefjum verður afleiðingin ein stærsta heilbrigðisáskorun samtímans: sýklalyfjaónæmi (AMR).

Sýklalyf eru ein merkasta uppgötvun mannkyns. Þau breyttu gangi sögunnar með því að gera áður banvænar sýkingar meðhöndlanlegar og skurðaðgerðir öruggar, og hjálpa þannig okkur og dýrunum okkar að lifa lengur. En því meira sem við notum eða ofnotum sýklalyf því hraðar tapast geta þeirra til að vernda okkur. Þessi ósýnilega umbreyting á sér stað allt í kringum okkur; á heimilum og sjúkrahúsum, í landbúnaði, í ám og í jarðveginum undir fótum okkar.

Þessi vitneskja á samt ekki að hræða okkur heldur vekja til meiri vitundar og samhyggju. Sýklalyfjaónæmi er áminning um að heilbrigði fólks, dýra og umhverfis er samtvinnað. Við getum lagt ýmislegt af mörkum til að viðhalda jafnvæginu: þvegið hendur, bólusett gæludýrin okkar, notað sýklalyf einungis þegar þeirra er þörf eða fargað sýklalyfjaafgöngum á réttan hátt.

Um hvað snýst þessi herferð?

Þessi herferð biður okkur að staldra við og velta fyrir okkur fegurð örveruheimsins og þá ábyrgð sem hvílir á okkur að viðhalda jafnvægi hans.

„Skissum sýklalyfjaónæmi“ sameinar 30 teiknara frá 30 Evrópulöndum í því skyni að vekja athygli á sýklalyfjaónæmi – með því að sameina list og vísindi. Hver mynd og texti er kafli í frásögn sem snertir okkur öll um mikilvægi þess að vernda virkni sýklalyfja. Myndirnar hnykkja á mikilvægi ábyrgrar notkunar sýklalyfja fyrir fólk og dýr, hreinlætis, bólusetninga og réttrar förgunar sýklalyfja til þess að hægja á útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og afleiðingum þess fyrir okkar daglega líf.

Því með því að vernda sýklalyfin okkar erum við að vernda lífið sjálft.

Teikningarnar

Elskum sýklalyfin okkar, deilum boðskapnum og veitum öðrum innblástur til aðgerða!

Sýklalyf eru meðal allra merkustu uppgötvana mannkyns. Þessi dýrmætu lyf hafa gert fólki og dýrum kleift að lifa lengur og við betri heilsu. En sýklalyfin eru að missa virkni sína. Því betur sem fólk skilur orsakirnar, því betur getum við sameinast um aðgerðir til að vernda virkni þeirra. Með því að miðla þekkingu okkar og styðja við ábyrga notkun sýklalyfja tryggjum við að þessi lífsnauðsynlegu verkfæri haldist áhrifarík – fyrir okkur sjálf, komandi kynslóðir og jörðina. Gakktu til liðs við alþjóðlegt samfélag boðbera táknsins fyrir sýklalyfjaónæmi! ELSKUM SÝKLALYFIN OKKAR!

Myndabókin

Skissum sýklalyfjaónæmi er meira en rafræn herferð. Hún mun einnig birtast sem fallega myndskreytt bók sem inniheldur frumleg verk frá 30 listamönnum frá 30 löndum.

Þetta er óhefðbundin leið til segja frá sýklalyfjaónæmi: myndræn, persónuleg og grípandi. Öflugur miðill fyrir fræðslu, viðburði og vitundarvakningar, og innihaldsrík gjöf sem miðlar mikilvægi þess að vernda áhrifamátt sýklalyfja.

Einnig fáanleg á rafrænu formi.

Sýningin

Skissum sýklalyfjaónæmi verður einnig götusýning fyrir almenning í borgum víðs vegar um Evrópu þar sem 30 myndir og tilheyrandi skilaboð verða til sýnis.

Götusýningarnar, ásamt hljóðleiðsögn, eru nýstárleg leið til að gera sýklalyfjaónæmi sýnilegt og aðgengilegt fyrir alla í almenningsrýmum.

Örveruheimurinn er fjölbreyttur

Flestar örverur eru ekki skaðlegar. Margar eru nauðsynlegar fyrir líkama okkar og umhverfið. Þær hjálpa okkur að melta fæðuna, vernda húðina og halda vistkerfum í jafnvægi. En sumar geta breyst í hættulega sýkla sem geta valdið alvarlegum veikindum.
Yfirlýsing listamanns
„Umhverfis og inni í okkur hrærist fjölbreytilegt vistkerfi örvera sem ekki sést með berum augum. Þær þjóna margvíslegum tilgangi við að verja okkur og viðhalda jafnvægi en sumar geta breyst í hættulega sýkla sem valda sjúkdómum. Myndin hvetur okkur til umhugsunar um hve fjölbreytt og ólík við erum en höfum þó öll okkar hlutverki að gegna við að stuðla að jafnvægi og sátt.”

Ashwin Chacko (Ireland)

Hvað eru sýklalyf og til hvers eru þau notuð?

Sýklalyf eru lífsbjörg sem gjörbylti samfélagi okkar. Sjúkdómar sem voru áður banvænir urðu hættulitlir og viðráðanlegir með einfaldri meðferð. Sýklalyf eru víðast notuð til að meðhöndla bakteríusýkingar. Þau drepa eða hindra vöxt baktería sem veikja fólk og dýr.
Yfirlýsing listamanns
„Ég vil beina kastljósinu að hlutum sem við göngum oft að sem vísum í daglega lífinu. Rétt eins og rafmagn á heimilum voru sýklalyf óhugsandi fyrir einni öld síðan. Banvænir sjúkdómar sem áður virtust óhjákvæmilegir er í dag oftast hægt að meðhöndla. Því býð ég áhorfandanum að doka við og dýfa sér inn í þennan litríka og fjölbreytta heim og hugsa um ósýnilegu hjálparhellurnar sem gera þetta allt mögulegt.“
Eiko Ojala (Estonia) 

Hvað er sýklalyfjaónæmi?

Sýklalyfjaónæmi myndast þegar bakteríur eða aðrar örverur hætta að bregðast við lyfjunum sem ætlað er að drepa þær. Þær verða þá að ofurbakteríum sem geta gert sýkingar mun erfiðari viðfangs og stundum ólæknandi.
Yfirlýsing listamanns
„Ímyndaðu þér bakteríu sem er svo öflug að hún getur sigrast á sýklalyfjum. Það er sýklalyfjaónæmi. Sumar bakteríur, oft kallaðar „ofurbakteríur“, hætta að bregðast við meðferð og geta breytt smávægilegum sýkingum í alvarleg vandamál fyrir heilsuna og heilbrigðiskerfið. En vandinn er þessi; ofurbakteríur er nú þegar allt í kringum okkur. Það er undir okkur öllum komið að gerast forvitin, afla okkur þekkingar og sporna við því að vandinn verði enn meiri.”
Kotryna Michaliovaite (Lithuania)

Hvernig þróast sýklalyfjaónæmi?

Bakteríur og aðrar örverur eru magnaðar lífverur sem aðlagast og þróast til að lifa af. Með stökkbreytingum eða með því að skiptast á erfðaefni geta þær þróað og áunnið sér nýja eiginleika sem gera þær ónæmar fyrir sýklalyfjum sem ætlað er að drepa þær. Með þessu náttúrulega ferli geta nýjar ofurbakteríur dafnað og breiðst út.
Yfirlýsing listamanns
„Myndin sýnir á einfaldan hátt hvernig bakteríur og aðrar örverur stökkbreytast til að lifa af. Með því að skiptast á erfðaefnisbútum (DNA) sín á milli verða til nýjar gerðir baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum (innan útlínu mannslíkamans). Þessar ónæmu bakteríur lifa af, þrátt fyrir opna lyfjahylkið, því sýklalyf hafa engin áhrif á þær.”
Ale Giorgini (Italy)

Náttúrulegt ferli sem menn hafa hraðað á.

Sýklalyfjaónæmi er náttúrulegt ferli en athafnir okkar hraða því. Sýklalyf eru oft notuð á rangan hátt fyrir fólk, dýr og plöntur. Því oftar sem við notum þau, því fleiri tækifæri fá bakteríur og aðrar örverur að verða að ónæmum ofurbakteríum. Eigum við þá að hætta að nota sýklalyf? Nei alls ekki! En við megum eingöngu nota þau þegar raunveruleg þörf er á og fylgja ráðleggingum fagaðila.
Yfirlýsing listamanns
„Þó sýklalyfjaónæmi sé náttúrulegt ferli, flýta athafnir okkar manna fyrir því. Hylkin sem renna út úr höndunum tákna vanmátt okkar að hafa fulla stjórn á áhrifum sýklalyfja, sem getur leitt til tilkomu ofurbaktería. Því ákafar sem við berjumst gegn bakteríum og öðrum örverum, því mikilvægara er að tryggja rétta notkun sýklalyfja.“
Mészely Ilka (Hungary)

Hvernig breiðist sýklalyfjaónæmi út?

Sýklalyfjaónæmi stoppar ekki við landamæri. Örverur berast á milli og innan dýra, fólks og plantna og ferðast um vatnsföll, jarðveg og loftin blá. Þetta stuðlar allt að útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Yfirlýsing listamanns
„Sýklalyfjaónæmi virðir engin landamæri. Við mannfólkið erum ekki alltaf meðvituð um þetta. En ef þú skoðar vandlega myndirnar og litina sérðu örverur ferðast um í lofti, vatni, skólpi, dýrum…“
Laura Janssens (Belgium)

Ein heilsa – einn heimur

Heilsa dýra, fólks og umhverfis er samofinn og flókinn vefur. Við deilum landi, auðlindum og örverum. Þar sem meira en 60% örvera sem valda sjúkdómum í fólki rekja rætur sínar til búfénaðar eða villtra dýra er heilsuvernd dýra og umhverfis líka heilsuvernd fyrir fólk. Baráttan við sýklalyfjaónæmi krefst samhæfðrar „Einnar heilsu“ nálgunar sem tekur tillit til allra þessa þátta. 

Yfirlýsing listamanns
„Fólki hættir til að gleyma að við lifum í vistkerfi þar sem öll dýr, plöntur og fólk deila sameiginlegum auðlindum. Við erum hluti af þessum heimi rétt eins og hann er hluti af okkur. Heilsa okkar og velferð eru nátengd náttúrunni og öllum lifandi verum umhverfis okkur. Þetta er vinsamleg áminning um að meta plánetuna okkar að verðleikum og lifa í sátt við hana, en ekki halda áfram að gjörnýta og menga auðlindir hennar.“
Illustration Theodor Hristov. Lobster study (Bulgaria)

Sýklalyfjaónæmi ógnar heilsu fólks á veraldarvísu

Við erum að verða uppiskroppa með úrræði til að lækna alvarlegar sýkingar hjá fólki, dýrum og plöntum.
Á hverju ári deyja 1,2 milljónir manna vegna sýklalyfjaónæmis; jafnmargir og deyja árlega af völdum alnæmis og malaríu. Að öllu óbreyttu munu 39 milljónir manna deyja vegna sýklalyfjaónæmis fram til ársins 2050.
Yfirlýsing listamanns
„Líkami þessarar konu er eins og vog eða mælikvarði á ógnina sem steðjar að okkur á alþjóðavísu. Andspænis sýklalyfjunum inni í henni standa bakteríur sem verða sterkari og ónæmari og ógna þannig heilsu hennar og okkar allra.”
Lisa Junius (Luxembourg)

Sýklalyfjaónæmi ógnar nútíma lækningum

Ímyndaðu þér heim án líffæragjafa eða skurðaðgerða… Án öflugra sýklalyfja til að meðhöndla sýkingar gætu lífsnauðsynleg inngrip eins og líffæragjafir, krabbameinsmeðferðir og skurðaðgerðir orðið stórhættulegar.

Yfirlýsing listamanns
„Að ímynda sér heim án nútímalækninga… það væri dapurlegur heimur.

Á teikningunni má sjá birtingarmyndir lífsins, plöntur í blóma og fiðrildi sem tákna endurfæðingu. Einnig dauðann, brothætt lífið, brostnar vonir og ónýt lækningatól. Stundaglasið minnir á hvernig ákvarðanir og valkostir geta kostað bæði tíma og líf.”

Athyglin beinist að tveimur ólíkum herbergjum sem endurspegla kosti og galla, ljós og myrkur, von og ótta. Þannig birtist sýklalyfjaónæmi sem ekki einungis líffræðilegt fyrirbæri heldur sem skuggaleg ógn við framfarir í læknavísindum, líf sjúklinga í læknismeðferðum og heilbrigði í veröldinni allri.“

Melpomeni Chatzipanagiotou (Greece)

Sýklalyfjaónæmi eykur álag á heilbrigðis- og hagkerfi þjóða

Sýkingar af völdum ónæmra sýkla þýða lengri veikindi, færri meðferðarmöguleika og lengri dvalir á sjúkrahúsum. Í Evrópu einni kostar meðhöndlun sýkinga af völdum ónæmra örvera nær 12 milljarða evra á ári, að meðtalinni aukinni heilbrigðisþjónustu og tapi á framleiðni.

Yfirlýsing listamanns
„Byrði ónæmisins. Hafalda sýklalyfja og annarra úrræða þrýstir á viðkvæma veggi sjúkrahúsa. Hver meðferð, hver atrenna að bata, hver glíma gegn ónæmi felur í sér kostnað.

Að baki sérhvers bata eru tími, úrræði og hulin vinna fólks sem hjálpar við varðveislu lífs. Með vaxandi ónæmi tekur bati lengri tíma og aukinn kostnaður skapar álag á innviði heilbrigðisþjónustunnar. Brothætt ljós þessarar byrðar snertir okkur öll, á sjúkrahúsum, á heimilum og í ósýnilegum hrynjanda hins daglega lífs. Að gæta þessa ljós er að vernda það sem heldur okkur á lífi.“

Anastasia Suvorova (Cyprus)

Sýklalyfjaónæmi skaðar heilsu og velferð dýra

Útbreiðsla ónæmra baktería og annarra ofurbaktería í dýrum, hvort sem þau lifa í landi eða vatni, leiðir óhjákvæmilega til aukinnar þjáningar þeirra og dauða. Þetta hefur áhrif á afkomu fólks um veröld alla þar sem 1,3 milljarðar manna reiða sig á búfjárskap og 20 milljónir á fiskeldi.
Yfirlýsing listamanns
„Djúp tengsl eru á milli fólks og húsdýra, sem eru háð hvert öðru. Kjarni þessara sambands ætti að vera alúð okkar ásamt getu til að skynja og skilja þarfir dýranna. Þessi teikning sýnir manneskju standa jafnfætis dýrunum og horfast í augu við þau, meðvituð um að tilvera okkar er bundin órjúfanlegum böndum við þeirra.“
Gosia Herba (Poland)

Sýklalyfjaónæmi ógnar fæðuöryggi

Ónæmar sýkingar í búfénaði krefjast dýrari meðferða og valda framleiðslutapi sem ógnar matvælaöryggi. Ef við bregðumst ekki við núna mun sýklalyfjaónæmi valda tapi á matvælaframleiðslu sem samsvarar neyslu tveggja milljarða manna á ári. Það er um það bil ein manneskja af hverjum fimm, gangi mannfjöldaspár eftir.
Yfirlýsing listamanns
„Dómínó myndlíkingin sýnir hvernig sýklalyfjaónæmi getur skaðað fæðukeðjuna. Þegar ónæmis verður vart breiðast áhrifin frá framleiðslu matvælanna inn á matarborðin okkar. Fallandi kubburinn endurspeglar að stjórnlaust sýklalyfjaónæmi gæti grafið undan fæðuöryggi heimsins og haft ógnvænleg áhrif á lífskjör og velferð fólks. Þessi keðjuverkun sýnir hversu viðkvæmt kerfið er. Þegar einn kubbur fellur, fylgja hinir fljótt á eftir.“
Zuzu Galova (Slovakia)

Sýklalyfjaónæmi hefur líka áhrif á gæludýrin okkar

Ónæmar bakteríur og aðrar ofurbakteríur geta sýkt hunda, ketti og önnur gæludýr og stofnað heilsu þeirra í hættu. Í sumum tilfellum þurfa dýrin öflugri eða langvinnari meðferð sem getur verið kostnaðarsöm og streituvaldandi. Þessar ónæmu bakteríur geta einnig borist á milli gæludýra og fólks (í báðar áttir) sem er áminning um hversu samofin heilsa okkar er.
Yfirlýsing listamanns
„Við elskum gæludýrin okkar og þau eru hluti af fjölskyldunni! Því nánara sambýli við þessa félaga okkar, því betur þurfum við að huga að hreinlæti. Myndin sýnir margháttað samband okkar við dýrin, tilfinningalegt jafnt sem áþreifanlegt. Vegna þessa geta ónæmar bakteríur auðveldlega ferðast á milli okkar.”
Bodil Jane (Netherlands)

Sýklalyfjaónæmi breiðist út í náttúrunni

Sýklalyfjaafgangar, ónæmar örverur og ónæmisgen berast út í náttúruna með manngerðum úrgangi, til dæmis með frárennslisvatni frá sjúkrahúsum og bæjum, iðnaðarmengun eða rangri förgun lyfja. Rétt meðhöndlun á úrgangi er nauðsynleg til að hindra að þessar leifar berist aftur til manna og dýra í gegnum mat, vatn eða beina snertingu við jarðveg og auki þannig hættu á smiti.
Yfirlýsing listamanns
„Myndskreytingin mín, handmáluð með akrílmálningu, undirstrikar sakleysi og hreinleika náttúrunnar, sem og varnaleysi hennar gagnvart sýklalyfjaónæmi. Myndin sýnir hvernig mannlegt athæfi og óviðeigandi förgun lyfjaúrgangs getur á hljóðlátan hátt borið ónæmar örverur út í umhverfið okkar.“
Matti Pikkujämsä (Finland)

Sýklalyfjaónæmi finnst jafnvel á afskekktum svæðum

Ónæmar bakteríur og aðrar örverur hafa fundist í fuglum, fiskum og villtum spendýrum, jafnvel á afskekktum náttúrulegum svæðum. Þetta sýnir hvernig ofurbakteríur geta borist um vistkerfin sem virka sem hýslar fyrir ónæmi og gefa því möguleika að berast aftur til fólks eða annarra dýra.

Yfirlýsing listamanns
„Við hugsum oft um villta náttúru sem aðskilið, lokað kerfi sem tengist ekki annasömu lífi okkar í borgum og bústöðum. Við látum eins og líf okkar séu sem aðskilin hvel sem aldrei skarist, sérstaklega þegar kemur að heilsu.

Snjókúlan virðist við fyrstu sýn vera lokað kerfi sem við getum hvorki komist að né breytt. En þegar kúlan er hrist birtast snjókorn sem þyrlast um kúluna. Hreyfing snjókornanna verður til vegna utanaðkomandi krafta sem breyta öllu. Snjókúlan er sprungin til að undirstrika að þessi vistkerfi eru í raun ekki eins aðskilin og þau virðast.“

Anja Sušanj (Croatia)

Sýklalyf eru dýrmæt lyf og skal meðhöndla af varfærni.

Sýklalyf eru nauðsynleg til að vernda heilsu okkar. Hins vegar eru þau allt of oft notuð á rangan hátt fyrir fólk, dýr og plöntur, sem skapar kjöraðstæður fyrir þróun nýrra ofurbaktería. Með því að nota þau aðeins þegar nauðsyn krefur – og alltaf samkvæmt ráðleggingum fagaðila – hægjum við á myndun og útbreiðslu ofurbaktería og verndum heilsu fólks, dýra, plantna og umhverfis.

Yfirlýsing listamanns
„Á þessari mynd er sýklalyfinu stillt upp sem meistaraverki á listasafni, líkt og Mónu Lísu á Louvre safninu. Mannfjöldi safnast saman til að dást að því, agndofa yfir tímalausri fegurð þess, ómetanlegu verðmæti og þeirri gæslu sem það krefst. Rétt eins og við viljum varðveita stórkostleg listaverk til framtíðar verðum við að hlúa að sýklalyfjum sem bjarga mannslífum. Vísindamenn, líkt og frægir listamenn, hafa skapað þessi verðmæti og það er á okkar ábyrgð að vernda verk þeirra fyrir komandi kynslóðir.“

Hugo van der Ding (Portugal)

Sýklalyf skulu aðeins tekin samkvæmt ráðleggingum læknis

Einungis skal taka sýklalyf og önnur sýklalyf þegar þeim hefur verið ávísað af lækni eða öðrum hæfum fagaðila og fylgja skal leiðbeiningum. Notkun þeirra án samráðs við lækni getur verið skaðleg og stuðlað að þróun ónæmra örvera.
Yfirlýsing listamanns
„Ég sótti innblástur í austur-evrópsk nútímaleg veggmyndaverk og flísalagnir sem prýða opinberar byggingar, svo sem sjúkrahús, skóla og fleiri stofnanir. Opnar hendur og fallandi töflur vísa til ofnotkunar sýklalyfja. Persónurnar tvær eru læknir sem skrifar lyfseðil og sjúklingur, ásamt tákni sýklalyfjaónæmis, til að minna á að sýklalyf ætti aðeins að nota samkvæmt ráðleggingum læknis.“
Jan Šrámek (Czech Republic)

Að hætta sýklalyfjameðferð of snemma gefur skaðlegum örverum annað tækifæri

Þegar við sleppum skömmtum eða hættum sýklalyfjameðferð of snemma vegna þess að okkur líður betur geta sterkustu örverurnar lifað af. Þær geta svo í kjölfarið gert okkur enn veikari og smitað aðra. Þannig eykst áhættan á að smitast af ofurbakteríum sem erfitt er að meðhöndla.

Yfirlýsing listamanns
„Lyf ætti að taka nákvæmlega samkvæmt lyfseðli, á réttum tíma og út meðferðartímann. Lykillinn að því að vernda bæði eigin heilsu og virkni sýklalyfja er að fylgja leiðbeiningum.

Myndin miðlar þessum skilaboðum með því að sýna einstakling taka töflu í sex aðskildum skrefum. Líkt og leiðbeiningar í handbók, sýnir hvert og eitt skref mikilvægi þess að fylgja leiðbeiningum um lyfjameðferð vandlega eftir.”

Max Guther (Germany)

Sýklalyf virka ekki gegn veirusýkingum eins og flensu

Sýklalyf eru hönnuð til að berjast gegn bakteríum, ekki veirum. Þau geta ekki ráðið við kvef, flensur eða flestar hálsbólgur. Að taka þau að óþörfu hjálpar okkur ekki að batna en gefur bakteríum í líkama okkar tækifæri til að verða ónæmar og erfiðari að meðhöndla.
Yfirlýsing listamanns
„Það er mikilvægt að skilja að sýklalyf hafa engin áhrif á veirur, aðeins bakteríur. Því ætti að nota sýklalyf á ábyrgan hátt og aðeins þegar nauðsyn krefur.

Ég sá fyrir mér veitingastað þar sem veirur finna sýklalyf við matarborðið. Ef einhver heldur að hægt sé að skaða veirur með því að „fóðra þær sýklalyfjum” þá skjátlast þeim. Veirur vita ekki einu sinni hvað þær eiga að gera við sýklalyfin.“

Gatis Sluka (Latvia)

Heilbrigður búfénaður þarf ekki sýklalyf

Með því að leggja áherslu á góða búskaparhætti – til dæmis að viðhalda hreinum og þægilegum aðstæðum, tryggja góða næringu og veita viðeigandi bólusetningar – minnkum við þörf fyrir sýklalyf. Með því að forgangsraða heilsu og velferð dýra getum við varðveitt virkni sýklalyfja án þess að skerða afköst búfjárræktunar.
Yfirlýsing listamanns
„Ég teiknaði kind sem lifir draumalífi, eins og öll dýr ættu að gera. Stjórnmálamaður, mótmælandi, bóndi og „venjulegur einstaklingur“ tákna að við getum öll lagt okkar af mörkum. Með góðum neysluvenjum, pólitískum aðgerðum og góðum búskaparháttum getum við unnið saman að því að tryggja að búfé okkar sé heilbrigt, hamingjusamt og þurfi ekki á sýklalyfjum að halda. Gott fyrir dýrin. Gott fyrir okkur líka, því þetta þýðir að sýklalyf eru líklegri til að virka þegar við þörfnumst þeirra.”
Hanne Sigbjørnsen Tegnehanne (Norway)

Góð umönnun gerir notkun sýklalyfja fyrir gæludýr óþarfa

Góð umhirða gæludýranna okkar með reglulegu eftirliti, snyrtilegum rýmum, góðu hreinlæti, hollri næringu og bólusetningum, hjálpar til við að koma í veg fyrir sýkingar. Þetta dregur úr þörf fyrir sýklalyf og minnkar líkur á að ofurbakteríur og ónæmar örverur komi fram.
Yfirlýsing listamanns
„Svolítil ást og umhyggja skiptir miklu fyrir gæludýrin okkar. Dagleg umhirða, eins og að bursta feldinn, hrein rými, góð næring, reglulegar skoðanir hjá dýralækni og bólusetningar – hjálpa til við að halda gæludýrum heilbrigðum og hamingjusömum og forðast þörf fyrir sýklalyf.“
Alja Horvat (Slovenia)

Dýralæknar vernda heilsu allra

Dýralæknar gegna lykilhlutverki við að ávísa sýklalyfjum á skynsaman hátt og vernda heilbrigði almennings. Sýklalyf ætti aðeins að gefa dýrum þegar dýralæknir ávísar þeim og nota þau samkvæmt leiðbeiningum.
Yfirlýsing listamanns
„ Mér fannst það fyndið að hugsa um að hugtakið „bakteríur“ er algjörlega óskiljanlegt og framandi fyrir dýr. Og þegar ég hugsaði meira um það, áttaði ég mig á því að þetta hugtak er eiginlega óskiljanlegt fyrir mig líka. Ég veit að þær eru til —en aðeins vegna þess að fólk, sem er gáfaðra en ég, sagði mér það. Svo ég setti mig í spor dýranna og teiknaði þessa mynd.“
Hugleikur Dagsson (Iceland)

Hreinar hendur bjarga lífum

Reglulegur handþvottur – áður en þú eldar eða borðar, eftir að hafa notað salerni, snert dýr eða verið úti við – getur stöðvað sýkingar áður en þær ná sér á flug.
Hvar sem við erum – heima, á heilbrigðisstofnunum, á bóndabæjum, í skólum eða í eldhúsum – er handþvottur einföld en öflug leið til að vernda fólk, dýr og sameiginlega heilsu okkar.

Yfirlýsing listamanns
„Við erum þessar 300 milljónir baktería sem lifa á höndunum þínum — og við völdum mörgum sjúkdómum sem þú reynir síðar að lækna með lyfjum.
Og ég er Luca. Ég er sex ára gamall og ætla að þvo hendurnar mínar mjög vel. Bless þið öll.“

„Handþvottur er eitthvað svo hversdagslegur að það er eiginlega ótrúlegt hversu mikið hann getur hjálpað við að leysa svona stóran vanda. Mér fannst það góð hugmynd að láta eitt af börnunum mínum tala við þessar 300 milljón örverur sem við höfum á óhreinum höndum okkar. Barnið táknar allt fólkið í Evrópu á snilldarlegan hátt.“

72 kilos (Spain)

Örugg meðhöndlun matvæla – færri sýkingar

Einfaldar venjur eins og að þvo hendur fyrir og á meðan matargerð stendur, halda yfirborðsflötum og áhöldum hreinum, aðskilja hráar og eldaðar matvörur til að forðast krossmengun, fullelda kjöt, egg og sjávarrétti, geyma fersk matvæli í kæli og þvo ávexti og grænmeti vel, hjálpa til við að fyrirbyggja sýkingar, draga úr þörf fyrir sýklalyf og minnka líkurnar á að ónæmar örverur þróist.
Yfirlýsing listamanns
„Einfaldar reglur við matreiðslu geta hlíft okkur við ofurbakteríum. Ég sýni helstu atriðin á einni mynd til að minna okkur á hvað þarf að hreinsa fyrir matseld: hendur, áhöld, borðfleti og grænmeti. Smávaxið hreinsunarteymi sér um hvert atriði til að hjálpa okkur að njóta betri heilsu.“
Cécile Dormeau (France)

Bólusetningar koma í veg fyrir sýkingar og draga úr útbreiðslu ofurbaktería

Fækkun sýkinga þýðir minni þörf á sýklalyfjum og færri tækifæri fyrir ofurbakteríur til að myndast. Bóluefni draga úr þörf á læknismeðferð bæði fyrir fólk og dýr og hjálpa til við að hefta útbreiðslu sjúkdóma.
Yfirlýsing listamanns
„Bóluefni eru eins og ljós í myrkrinu. Þegar færra fólk og dýr veikjast af sýkingum minnkar þörfin fyrir sýklalyf og önnur lyf. Þannig verða færri tækifæri fyrir ónæmar örverur til að skaða heilsu okkar allra.“
Sergiy Maidukov (Ukraine)

Mikilvægt er að halda fjarlægð þegar maður er veikur

Venjur eins og að nota grímu eða vera heima þegar veikindi standa yfir hjálpa til við að draga úr útbreiðslu sýkinga. Þannig verða færri læknisheimsóknir fyrir ástvini og vinnufélaga, færri ávísanir á sýklalyf og færri tækifæri fyrir ónæmar bakteríur og aðrar ofurbakteríur að þróast.
Þessar varúðarráðstafanir eiga líka við um dýrin sem við umgöngumst því sumar ónæmar örverur geta borist milli fólks og dýra, á báða vegu.
Yfirlýsing listamanns
„Hugsaðu um þá valkosti sem þú hefur þegar þú ert veik/ur:

Nota grímu, vera heima, þvo hendur… svo þú smitir ekki aðra og minni þörf verði á sýklalyfjum.

Hins vegar geta handabönd og náið samneyti dreift bakteríum og aukið notkun á sýklalyfjum. Í kjölfar þessa eykst hættan á að ónæmar bakteríur myndist og dreifist. Munurinn á þessu tvennu er eins og nótt og dagur.“

Ana Popescu (Austria)

Ekki deila sýklalyfjum með öðrum

Taktu aldrei sýklalyf sem hefur verið ávísað fyrir einhvern annan nema þú hafir ráðfært þig við heilbrigðisstarfsmann, og gefðu lyfin þín aldrei gæludýri. Hver lyfseðill er sérsniðinn að ákveðinni sýkingu og einstaklingi. Notkun rangra lyfja getur seinkað bata, valdið aukaverkunum og stuðlað að myndun ónæmra örvera sem erfiðara er að meðhöndla.
Yfirlýsing listamanns
„Þessi mynd sýnir hvernig meðferð er ávallt sérsniðin að hverjum einstaklingi. Andlitsmyndirnar tvær renna saman í eina, en umgjörð þeirra er mjög ólík: ein hefur skrælnaðar trjágreinar sem tákna misnotkun og þann skaða sem hún getur valdið, á meðan hin sýnir útsprungin blóm sem tákna rétta meðferð og þann frið og bata sem hún veitir. Þessar andstæður sýna greinilega að það sem virkar fyrir einn virkar ekki endilega fyrir annan. Lyfjameðferð er einstaklingsbundin og lyfjum má ekki deila með öðrum.“
Alfie Gatt (Malta)

Henda skal lyfja afgöngum á réttan hátt

Óviðeigandi förgun sýklalyfja skaðar umhverfið og getur stuðlað að útbreiðslu ónæmis og myndun ofurbaktería. Ekki geyma ónotuð eða útrunnin sýklalyf, ekki henda þeim í ruslið og ekki sturta þeim í klósettið. Farðu með þau í apótekið eða fylgdu leiðbeiningum um örugga förgun.

Yfirlýsing listamanns
„‘Sturtaðu bara sýklalyfjunum niður klósettið, EVA!’ ‘Ekki eyða tíma í að fara í apótekið – hentu lyfjunum í ruslið, EVA!’ ‘Þessi ofurbaktería skrifast á þig, Jón!!’“

„Þetta er klassísk háðsádeila. Í stað þess að segja hvað ekki á að gera vildi ég sýna hvað gerist þegar það er gert, með venjulegu samtali á milli heimilisfólks, sem er dregið saman í eina setningu.“

Anders Mongenthaler (Denmark)

Ábyrg notkun sýklalyfja við jurta- og kornræktun skiptir máli

Sveppaeitur, illgresiseyðir og skordýraeitur eru notuð til að sporna við plöntusjúkdómum. Sýklalyf eru að auki notuð sem vaxtarörvandi í sumum löndum. Rannsóknir sýna að slík notkun getur stuðlað að myndun ónæmra örvera. Löggjöf og takmarkanir á notkun þessara efna ásamt góðri tækni við akuryrkju stuðla að verndun umhverfisins og áframhaldandi virkni efnanna.
Yfirlýsing listamanns
„Þessi mynd dregur fram muninn á annars vegar einhæfðri ræktun í stórum stíl í iðnvæddum landbúnaði þar sem skordýraeitur er jafnan notað og hins vegar fegurð búskapar á smærri skala þar sem margar tegundir fá að lifa saman.“
Sara Andreasson (Sweden)

Traust á vísindum er lykillinn að því að hemja útbreiðslu sýklalyfjaónæmis

Þegar við treystum vísindalegum rökum og byggjum verk okkar á þeim hjálpum við að byggja upp upplýstara og ábyrgara samfélag.
Stuðningur við rannsóknir, nýsköpun og sameiginleg verkefni á sviði heilsu fólks, dýra og umhverfis er nauðsynlegur til að draga úr sýklalyfjaónæmi.
Yfirlýsing listamanns
„Myndskreytingin mín fjallar um allt vistkerfið sem við þurfum að huga að, líf okkar í borgum og sveitum, nauðsyn þess að vernda og endurheimta náttúruna, ábyrgar fiskveiðar, mikilvægi dýralækna… og vísindarannsóknir og uppgötvanir sem gerðar eru til að vernda okkur öll.“
Loreta Isac (Romania)